top of page

Skipulagsmál í Öræfum



Á íbúafundi í Hofgarði þann 15. október 2024 var fjallað um aðalskipulagsmál tengd byggðarþróun og samgöngum í Öræfum. Í byrjun fundar kynnti umhverfis- og skipulagsstjóri sveitarfélagsins uppbyggingu og gögn nýrrar aðalskipulagstillögu sem enn er í mótun en ráðgert er að kynna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á næstu mánuðum. Þá verður gefinn 4 vikna umsagnarfrestur áður en gengið verður frá aðalskipulagstillögu til formlegrar auglýsingar með tilskildum 6 vikna athugasemdafresti. 


Uppbygging nýs aðalskipulags


Fulltrúi Vegagerðarinnar kynnti síðan valkosti um breytingar á legu Hringvegar í Öræfum. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir færslu þar en á undanförnum árum hafa komið fram hugmyndir um aðra möguleika. Í lok kynningar kallaði fundarfólk eftir skoðun á valkosti sem lægi niður á sandi, neðan við tún, og teiknuðu nokkrir fundargestir sínar tillögur á kort. Í framhaldi af fundinum hefur sveitarfélagið óskað eftir því að Vegagerðin skoði og kostnaðarmeti þann valkost og í umhverfismati aðalskipulagstillögu verða valkostirnir bornir saman m.t.t. áhrifa á umhverfi og samfélag m.v. áætlunarstig. Nánara mat á valkostum og áhrifum þeirra mun síðan verða á framkvæmdastigi, sbr. lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.  


Valkostir um breytingar á legu Hringvegar í Öræfum sem Vegagerðin kynnti á fundinum 15. okt. sl.


Vegagerðin fór einnig yfir helstu framkvæmdir á Suðausturlandi sem gert er ráð fyrir í tillögu að nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 en hún hefur ekki verið afgreidd af Alþingi. Fram kom að í tillögunni er gert ráð fyrir færslu Hringvegar við Jökulsárlón á tímabilinu 2033-2035 en að bráðabirgðatenging/sjóvörn verði gerð árið 2026. Fundarfólk kallaði eftir skjótum úrbótum á gönguleið um brúna yfir Jökulsárlón vegna mikillar slysahættu.


Á síðari hluta fundar fór skipulagsráðgjafi frá Alta yfir þær áherslur sem eru að mótast í nýrri aðalskipulagstillögu hvað varðar ferðaþjónustu, íbúðarbyggð, landbúnaðarsvæði, skógrækt og mörk óbyggðra svæða. Nokkrar umræður sköpuðust um hvernig búa skal um skipulag m.t.t. þróunar íbúðarhúsnæðis í Öræfum og verða punktar úr þeim hafðir til hliðsjónar við frekari mótun aðalskipulagstillögunnar. 



 


Aðrar fréttir
bottom of page